154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:29]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir seinna andsvarið. Varðandi almannatryggingarnar er 62. gr. almannatryggingalaga, áður 69. gr., skýr um að fjárhæðir almannatrygginga skuli breytast árlega og að ákvörðun þeirra skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag. Hvernig reiknar þú verðlag? Þú tekur verðlag ársins sem er að líða og áætlar fram í tímann. Ef greinin er túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan ætti eðlilega að leggja til grundvallar launa- og verðlagsþróun í samfélaginu frá samþykkt síðasta fjárlagafrumvarps fram til áramóta og hækka almannatryggingar í samsvarandi hlutfalli. Það er þannig sem það er gert við alla aðra liði fjárlagafrumvarpsins.

Varðandi spurningu hæstv. fjármálaráðherra um leigubremsuna þá er það alveg rétt að ef leigubremsan er það hörð þá getur það dregið úr framboði á leiguhúsnæði en það er bara ekki þannig ástand í samfélaginu í dag. Það voru sögur af því í samfélaginu að það var verið að hækka leigu hjá fólki, láglaunafólki, um allt að 65.000 kr. á ári. Það hefur ekki áhrif á framboðið. (Forseti hringir.) Leigubremsa á að miða við að það sé fyrirsjáanleiki og (Forseti hringir.) koma í veg fyrir þessa fjármálavæðingu húsnæðis, að hún stoppi. Það er það sem er hættan hér.